top of page
  • Þórshamar

Freyja Íslandsmeistari unglinga

Updated: Dec 10, 2019

Unglingalið Þórshamars stóð sig með prýði á ÍM unglinga í kumite á laugardaginn. Níu keppendur tóku þátt og unnu fimm til verðlauna: Freyja Stígsdóttir varð Íslandsmeistari, Hannes Hermann Mahong Magnússon og Kristjana Lind Ólafsdóttir tóku silfur og Agnar Már Másson og Victor Anh Duc Le brons.Verðlaunahafar Þórshamars í lok dags, ásamt liðsstjóra, dómurum og starfsmönnum. Efri röð frá vinstri: Kári, Aron, Victor, María, Freyja, Hannes. Neðri röð: Kristjana, Agnar, Halldóra.


Í flokki 12 ára pilta kepptu þeir Marteinn Edward Lucas og Steinar Máni Þrándarson. Báðir áttu þeir góða spretti í sínum bardögum en komust ekki á pall að þessu sinni.


Í flokki 13 ára pilta keppti Victor Anh Duc Le. Victor vann Björn Breka Halldórsson úr KFR 2–0 í fyrstu umferð og mætti ríkjandi Íslandsmeistara, Alexander Rósant Hjartarsyni úr Fylki, í undanúrslitum. Alexander tók forystuna snemma og komst í 5–1 en þá skoraði Viktor glæsilegt ushiromawashigeri og minnkaði muninn í 5-4. Fleiri urðu stigin ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Victors til að skora. Hann vann síðan öruggan 6–0 sigur á Birgi Gauta Kristjánssyni úr Breiðablik til að tryggja sér bronsið.


Í –63 kg flokki 14–15 ára pilta kepptu þeir Valur Kristinn Starkaðarson og Ágúst Valfells. Báðir sýndu góð tilþrif í viðureignum sínum og höfnuðu í 5.-6. sæti í flokknum, en þeir hafa tekið miklum framförum á þessu ári.


Í +63 kg flokki 14–15 ára pilta keppti Hannes Hermann Mahong Magnússon. Hann vann 5–0 sigur á Arnóri Ísfeld Snæbjörnssyni úr Fylki í fyrstu umferð og vann Daníel Karles Randversson frá Akureyri á senshu (fyrsta stigi) eftir 2–2 jafntefli í undanúrslitum. Í úrslitum mætti hann Huga Halldórssyni frá KFR. Hugi hafði forystuna í leikslok, 4–2, en Hannes var hársbreidd frá því að hrifsa til sín sigurinn þegar hann smellhitti ushiromawashigeri í Huga á síðustu sekúndu bardagans. Því miður missti Hannes jafnvægið eftir sparkið og fékk því ekki dæmt stig fyrir það, en má vera stoltur af silfrinu.


Í flokki 16–17 ára pilta varð Agnar Már Másson þriðji eftir tvo hörkubardaga við Samuel Josh Ramos og Daníel Aron Davíðsson úr Fylki. Sérstaklega var bardagi Agnars og Daníels æsispennandi. Báðir sýndu glæsileg tilþrif og gáfu ekkert eftir, en lokatölur fóru 8–6 fyrir Davíð.


Í flokki 16–17 ára pilta kepptu þær Kristjana Lind Ólafsdóttir og Freyja Stígsdóttir. Báðar unnu þær sigur á Hjördísi Helgu Ægisdóttur úr Haukum og kepptu síðan til úrslita. Viðureignin var jöfn og spennandi og fór svo að Freyja vann Kristjönu 5–4, og vann þar með eina Íslandsmeistaratitil Þórshamars á þessu móti.

64 views0 comments

Comments


bottom of page