Þórshamar kom, sá og sigraði á Íslandsmeistaramótinu í kata í gær! Hæst ber þar árangur Freyju Stígsdóttur, en þessi 18 ára gamla karatekona gerði sér lítið fyrir og varð tvöfaldur Íslandsmeistari, í kata og hópkata kvenna. Í úrslitum í einstaklingsflokki gerði hún stórglæsilega Unsu og fékk fyrir hana heila 23,4 í einkunn, sem tryggði henni hennar fyrsta titil í flokknum. Í hópkata vann Freyja svo Íslandsmeistaratitil annað árið í röð, ásamt þeim Maríu Helgu Guðmundsdóttur og Helgu Björg Óladóttur. Við óskum Freyju innilega til hamingju með árangurinn.
Þórshamar hirti líka silfurverðlaun í báðum kvennaflokkum. Í kata kvenna keppti María Helga Guðmundsdóttir við Freyju til úrslita og hlaut 23,08 stig fyrir framkvæmd sína á kata Gankaku. Í hópkata kvenna hrepptu þær Azia Sól Adamsdóttir, Jóna Gréta Hilmarsdóttir og Ólöf Soffía Eðvarðsdóttir silfrið.
Þórshamar átti tvö hópkatalið í karlaflokki. Lið Jóns Inga Þorvaldssonar, Ágústs Valfells og Hannesar Hermanns Mahong Magnússonar gerði flotta Bassai Dai sem tryggði þeim silfurverðlaun. Nýliðar ársins voru svo þeir Mio Storåsen Högnason, Högni Sigurþórsson og Are Brand, rauð- og grænbeltingar sem gerðu sér lítið fyrir og kepptu á sínu fyrsta karatemóti. Þeir mættu öflugir til leiks og gerðu flotta Heian Shodan, höfnuðu í 3. sæti og koma heim reynslunni og bronsinu ríkari.
Í kata karla háðu þeir Jón Ingi Þorvaldsson og Aron Bjarkason spennandi rimmur um bronsverðlaunin tvö en lutu í lægra haldi. Auk þess komst Hannes Hreimur Arason Nyysti í 7. sæti og Hannes Hermann Mahong Magnússon í 9. sæti. Hannes Hermann gerði sér svo lítið fyrir og hirti bronsverðlaun í kata 16–17 ára pilta.
Félagið vann 21 stig á mótinu gegn 9 stigum Breiðabliks, 4 stigum Aftureldingar og 2 stigum KFR og varði því félagabikarinn frá því í fyrra. Þórshamar hefur nú unnið félagabikarinn 5 ár af síðustu 6 og heldur áfram að skera sig úr varðandi liðsheild og þátttöku á mótinu. Dagurinn gekk frábærlega undir dyggri liðsstjórn Eddu Blöndal, sem við þökkum kærlega fyrir utanumhaldið.
Okkar eigin Patrycja Makowska tók svo þessar frábæru myndir á mótinu. Takk, Patrycja!
댓글