Kæru iðkendur, Frá og með 4. maí getum við snúið aftur í eðlilega starfsemi fyrir börn á grunn- og leikskólaaldri. Einnig munum við hefja starfsemi fyrir 16+ ára í samræmi við reglur samkomubanns:
1.–6. flokkur (5–11 ára): Kennsla skv. stundaskrá. Einnig hefjast kataæfingar U12 ára aftur.
12–15 ára unglingar: Æfingar 3x í viku, þri/mið/fös 18:30–20.
16+ ára: Æfingar í smærri hópum, mán/fim og um helgar. Nánari útfærsla tilkynnt fljótlega og verður í samræmi við tilmæli sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra.
Vorönn framlengd
Þegar samkomubann hófst voru liðnir tveir mánuðir af vorönn. Restin af vorönninni kemur því í staðinn fyrir hefðbundna sumarönn í félaginu. Áfram verður kennd full stundatafla og stefnt er á gráðun snemma í ágúst. Æfingagjöld iðkenda fyrir vorönn 2020 gilda því út sumarið 2020.
Ef miklar breytingar verða á iðkendafjölda getur verið að við aðlögum hópaskiptingu út frá því. Slíkt verður kynnt með góðum fyrirvara.
Smitvarnir
Eftir sem áður verður að huga sérstaklega að smitvörnum. Regla um 2ja metra fjarlægð milli fullorðinna gildir enn, og handþvottur og hreinlæti skipta höfuðmáli.
Setustofa Þórshamars er of lítil til að hægt sé að virða tveggja metra reglu fyrir fleiri en örfáa í einu. Meðan hún gildir verður ekki heimilt fyrir foreldra/ættingja að bíða á setustofunni. Eins verður ekki boðið upp á kaffi eða te. Við förum þess á leit að börn komi í sínum karategalla/íþróttafötum á æfingar og að foreldrar fylgi þeim ekki inn í húsnæðið heldur bíði fyrir utan. Þjálfarar munu aðstoða iðkendur við að binda belti og slíkt, eftir þörfum.
Hvað gerist fram til 4. maí?
Við höldum áfram að birta vídeóæfingar og hvetjum ykkur til að fylgjast með og taka þátt. Endilega fylgist áfram með:
– Í Facebook-hópi Þórshamars fyrir iðkendur og velunnara
Næstu daga erum við að vinna hörðum höndum að því að undirbúa enduropnun, svo við munum birta færri vídeó í hverri viku en undanfarið. Við vonum að þið sýnið því skilning.
Takk fyrir!
Undanfarnar vikur hafa reynt mikið á okkur öll. Sum hafa veikst eða átt ættingja sem veiktust, önnur lent í sóttkví og öll höfum við gengið í gegnum mikið rask á okkar daglega lífi. Við erum djúpt snortin yfir þeim dugnaði, metnaði og karategleði sem við höfum fundið fyrir frá ykkur öllum. Hjartans þakkir fyrir það og við hlökkum til að sjá ykkur aftur.
Með sumarkveðju,
stjórn og þjálfarar Þórshamars
Comments