LÖG KARATEFÉLAGSINS ÞÓRSHAMARS
SÍÐAST BREYTT Á AÐALFUNDI 22. FEBRÚAR 2021
1. grein
Félagið heitir Karatefélagið Þórshamar. Höfuðstöðvar þess eru að Brautarholti 22 í Reykjavík.
2. grein
Markmið félagsins er að stuðla að eflingu og ástundun karateíþróttarinnar og Shotokan Karate.
3. grein
Félagi í Karatefélaginu Þórshamri telst hver sá sem greitt hefur félags- eða æfingagjöld á liðnu eða yfirstandandi ári, eða starfað við þjálfun eða rekstur á vegum þess.
Stjórn félagsins getur sæmt einstaklinga stöðu heiðursfélaga í Þórshamri. Þeir eru undanþegnir greiðslu félags- og æfingagjalda. Heiðursfélagar hafa öll sömu réttindi og aðrir félagar á vettvangi Þórshamars.
Hverjum félaga í Karatefélaginu Þórshamri fylgir eitt atkvæði á aðalfundi og félagsfundum. Lögráða félagi fer sjálfur með sitt atkvæði. Einn forsjáraðili ólögráða félaga fer með atkvæði hans. Ólögráða félagi hefur rétt til fundarsetu á aðal- og félagsfundum, málfrelsi og tillögurétt.
Kjörgengir til embætta eru allir lögráða félagar og forsjáraðilar ólögráða félaga.
4. grein
Félagsgjald og æfingagjöld skulu ákveðin af stjórn.
5. grein
Greiði félagsmaður ekki æfingagjöld hefur hann hvorki leyfi til að þreyta gráðun né keppa fyrir hönd félagsins.
6. grein
Stjórn félagsins skipa formaður, fjórir aðalmenn og tveir varamenn. Stjórnin skal kosin á aðalfundi félagsins. Formann skal kjósa til árs í senn. Kjörtímabil annarra aðalmanna, sem og varamanna, er tvö ár. Ennfremur skal kjósa skoðunarmann reikninga til eins árs í senn.
Ár hvert skal því kjósa formann, tvo aðalmenn og einn varamann í stjórn.
Aðalmenn skulu skipta með sér embættum varaformanns, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda á fyrsta stjórnarfundi hvers starfsárs.
7. grein
Stjórninni ber að gæta hagsmuna félagsins á öllum sviðum.
Stjórnin getur enga fullnaðarákvörðun tekið, nema þrír stjórnarmenn séu henni fylgjandi.
Stjórnin getur vikið félögum úr Þórshamri álíti hún framkomu þeirra félaginu til vansa. Einnig getur stjórn afturkallað heiðursfélaganafnbót af slíkum sökum. Þó getur viðkomandi óskað þess að málið verið tekið fyrir á félagsfundi áður en stjórn afgreiðir málið endanlega.
8. grein
Stjórn hefur umráð yfir eignum félagsins og boðar til funda. Þó getur hún ekki gert meiriháttar breytingar á eignastöðu félagsins nema með samþykki félagsfundar.
Hver einstök ráðstöfun fjármuna til reksturs eða framkvæmda sem nemur hærri fjárhæð en 30% af lausafjármunum félagsins krefst samþykkis félagsfundar.
Hver einstök ráðstöfun fjármuna til fjárfestingar eða sala eigna sem nemur hærri fjárhæð en 20% af heildareignum félagsins krefst samþykkis félagsfundar.
9. grein
Stjórn félagsins getur skipað tækninefnd til að marka stefnu í karateiðkun og -kennslu í félaginu. Tækninefnd skal ætíð skipuð hæfustu og reyndustu iðkendum innan félagsins og starfa í samráði við þjálfara og stjórn. Tækninefnd skal gefið umboð til fyrirfram ákveðins tíma eða til afmarkaðra verkefna og skal hún skila niðurstöðum úr störfum sínum til stjórnar.
10. grein
Reikningar félagsins miðast við 31. desember.
11. grein
Aðalfund skal halda ár hvert fyrir lok febrúar og skal boða til hans fyrir lok janúar. Aukaaðalfundi og félagsfundi skal halda svo oft sem stjórnin ákveður eða ef skrifleg ósk kemur frá eigi færri en 10 félagsmönnum.
Til aðalfundar eða félagsfundar skal boða með minnst 10 daga fyrirvara og er hann lögmætur sé löglega til hans boðað. Löglega er boðað til aðalfundar eða félagsfundar með tilkynningu á vef félagsins, á tölvupóstlista og með auglýsingu í húsnæði félagsins.
Á aðalfundi og félagsfundum skal kjósa fundarstjóra og fundarritara. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum allra mála nema lagabreytinga.
12. grein
Á aðalfundi skal taka mál fyrir í þeirri röð sem hér segir:
-
Kjör fundarstjóra og fundarritara.
-
Lögmæti fundar staðfest.
-
Skýrsla stjórnar.
-
Lagðir fram endurskoðaðir reikningar.
-
Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga. Reikningar bornir undir atkvæði.
-
Lagðar fram tillögur að breytingum laga, siðareglna og reglugerða félagsins, ef um er að ræða.
-
Kosning stjórnar, skoðunarmanns reikninga og skemmtinefndar.
-
Önnur mál.
13. grein
Tillögur um lagabreytingar skal leggja fyrir stjórn minnst viku fyrir aðalfund og skal stjórn jafnharðan kynna fyrirliggjandi breytingatillögur fyrir félagsmönnum. Tvo þriðju hluta atkvæða þarf til að breyta lögum.
14. grein
Félagið skal setja siðareglur fyrir stjórn og starfsfólk. Siðareglur skulu bornar upp til samþykktar með einföldum meirihluta atkvæða á aðalfundi. Um innsendingu og kynningu tillagna að breytingum á siðareglum gilda sömu reglur og um lagabreytingatillögur, sjá 13. grein.
15. grein
Tillaga um að leggja Karatefélagið Þórshamar niður þarf að berast stjórn a.m.k. 3 vikum fyrir aðalfund og skal tillögunnar getið í fundarboði. Félaginu verður ekki slitið nema á aðalfundi og þá því aðeins, að 4/5 hlutar atkvæða samþykki slitin. Með slíkri samþykkt er störfum þess aðalfundar tafarlaust lokið, en fráfarandi stjórn skal sitja áfram með fullu umboði. Skal hún boða til annars aðalfundar þremur mánuðum síðar. Sé þá aftur samþykkt með 4/5 hluta atkvæða að slíta félaginu, skulu það heita lögleg félagsslit.
Verði félagið lagt niður skal húsnæði þess renna til Íþróttabandalags Reykjavíkur og aðrar eignir renna til Karatesambands Íslands. Skulu eignir þessar varðveittar í tvö ár. Ef annað félag með sömu markmið og Karatefélagið Þórshamar er stofnað innan þess tíma, skulu eignirnar renna til þess.