top of page

HVAÐ ER KARATE?

Karate er bardagaíþrótt upprunnin á japönsku eyjunni Okinawa, þar sem eyjaskeggjar æfðu sjálfsvörn undir áhrifum frá kínverskum bardagalistum.

 

Í aldaraðir höfðu Kínverjar lagt stund á sínar eigin bardagalistir. Angar af þessum listum bárust til Okinawa og blönduðust þær við hinar ýmsu bardagalistir sem stundaðar voru á eyjunni svo úr urðu mismunandi staðbundin afbrigði sem kennd voru við sínar borgir eða bæi. Þannig urðu til t.d. shuri-te og tomari-te þar sem „te“ þýðir hönd og Shuri og Tomari eru bæir. Það var síðan Gichin Funakoshi (sjá um Shotokan) sem innleiddi hugtakið kara-te þar sem „kara“ þýðir tómur.

Í karate er beitt höggum og spörkum til að yfirbuga andstæðinginn. Kraftmiklar og snarpar hreyfingar einkenna karate og íþróttin byggir upp styrk, þol og liðleika. Hægt er að iðka karate á ýmsum forsendum: sem alhliða líkamsrækt, sjálfsvörn eða keppnisíþrótt.

IÐKUN KARATE ER ÞRÍÞÆTT:

DSC_0238.jpg

KIHON

Kihon eru grunntækniæfingar í karate. Með æfingum á kihon slípar iðkandinn tækni sína, stöður og líkamsbeitingu.

53678719_10157230049474225_3346930012178

KATA

Kata eru fyrirfram ákveðnar raðir hreyfinga sem framkvæmdar eru með krafti, snerpu og ásetningi eins og um bardaga væri að ræða. Kata er í senn safn tækni og útfærslna á henni, bardagi við ímyndað andstæðinga og öflugt æfingatækifæri til að skerpa líkama og huga. Iðkun kata er mikilvægur hluti af menningu austurlenskra bardagalista. Í hefðbundnu Shotokan karate eru 26 kata kenndar.

DSC_0548.jpg

KUMITE

Kumite er sá hluti karate þar sem tækni er beitt á móti andstæðingi. Í kumite lærir iðkandinn að sækja og verjast og beita þeirri tækni sem hann kann á árangursríkan hátt.

Thorshamar-logo-glært.gif

SHOTOKAN KARATE

Gichin Funakoshi (1868-1957) var skólakennari á Okinawa. Hann lagði stund á karate og þróaði smám saman sinn eigin stíl. Þáttaskil urðu árið 1922 þegar Funakoshi fór til Tokyo ásamt hópi nemenda sinna til að sýna karate. Sýningin vakti mikla athygli og var Funakoshi hvattur til að setjast að á meginlandinu og kenna íþrótt sína. Hann stofnaði skóla sem nemendur hans gáfu nafnið Shotokan („hús Shoto“) til heiðurs kennara sínum, en Funakoshi orti ljóð undir skáldanafninu Shoto. Tilurð skólans markaði upphaf japansks karate.


Á sama tíma voru fleiri karatekennarar að hasla sér völl á meginlandinu og þróuðust ýmis stílafbrigði íþróttarinnar í Japan. Af fjórum meginstílum karate er Shotokan sá útbreiddasti.


Helstu einkenni Shotokan eru djúpar sterkar stöður, langdræg spörk og högg, kraftmiklar varnir og mikil áhersla á smáatriði og tæknilega fullkomnun.
Í Shotokan reynir iðkandinn að ná sem mestu úr sem minnstu. Grunnhugsunin er að eitt vel útfært högg eigi að geta grandað andstæðingnum. 

bottom of page